Gleðilegt ár kæru vinir

Frost
Megi nýhafið ár verða ykkur öllum farsælt í leik og starfi.
Ég er ekki vanur að strengja áramótaheit og breyti ekki út af venjunni núna. Það hindrar mig þó ekki í að velta fyrir mér hver ég sé og hvert ég stefni. Það er alltaf til góðs, svo framarlega sem maður lætur slíkar pælingar ekki verða of íþyngjandi og fyrirferðamiklar.
Ég hef alltaf lesið dálítið af bókum um mannlega hegðun og hugsun. Sumar gætu flokkast undir "sjálfshjálparbækur" en aðrar eru skrifaðar af fræðimönnum í félagsvísindum og sálfræði. Sumar þessara bóka eru býsna góðar og vekja mann til umhugsunar. Aðrar eru fremur þunnar og skilja lítið eftir.
Núna er ég að lesa eina sem kannski má kalla þungaviktarbók. Hún er eftir, Jonathan Haidt, sálfræðikennara við Virginiaháskóla í Bandaríkjunum og heitir The Happiness Hypothesis. Bókin nálgast hamingjuhugtakið frá ýmsum hliðum, m.a. er fjallað um samspil líffræðilegra og félagssálfræðilegra þátta, sálfræðimeðferðir, íhugun og Búddisma, prozac og lyfjameðferðir við þunglyndi svo fátt eitt sé nefnt. Greint er frá ótal tilraunum til að kanna viðbrögð við ýmsum aðstæðum osfrv. Allt til að draga saman í heillega mynd hvernig við erum af Guði gerð. Stórskemmtilegar pælingar.
Kannski tíni ég seinna einhverja gullmola hingað inn en langar að segja ykkur núna hvaða líkingu Haidt notar sem rauðan þráð í gegnum skrif sín um skynsemi og tilfinningar. Tilfinningar eru upprunalega öflugri en skynsemin, þróuðust fyrr og eru fyrirferðarmeiri en skynsemin þegar kemur að ákvarðantöku. Haidt líkir þeim við fíl og skynseminni við stjórnanda fílsins, reiðmanninn, fílamanninn (sbr. hestamanninn). Það er hægt að læra misgóðar stjórnunaraðferðir og sumir verða býsna góðir fílamenn. EN þegar fíllinn verður t.d. reiður eða hræddur þá er nokk sama hvað einn lítill fílahirðir reynir, hann hefur enga möguleika á að stöðva fílinn eða taka stjórnina.
Þið hljótið öll að kannast við það að þegar tilfinningarnar eru í ójafnvægi þá nær skynsemin ekki yfirhöndinni. Ekki fyrr en um hægist og fíllinn róast aðeins.
Og þannig er það mín kæru að tilfinningar eru í raun ekkert ómerkilegri en skynsemin, má jafnvel segja að þær séu fíllinn sem skynsemin ferðast á. Sá sem skilur sjálfan sig og eðli sitt er betur í stakk búinn til að takast á við lífið. Betur fær um að verjast því að spilað sé með tilfinningar hans. Betri í að skilja á milli aðal- og aukaatriða. Fljótari að ná stjórn á erfiðum tilfinningum og aðstæðum.
Sem betur fer náum við þó seint fullkominni stjórn og verðum algjörlega útreiknanleg. Það yrðu vond örlög.
Megið þið læra betur á nýju ári að verða þær persónur sem þið viljið vera. Ég stefni að því að framkvæma ekki til að þóknast öðrum heldur til að verða sá sem ég vil verða. Ég vona að ég njóti betur, skilji fleira, gefi meira af mér og elski í enn meira mæli en hingað til.
Megi tilfinningar ykkar og skynsemi ná betra jafnvægi á nýju ári og færa ykkur nær því sem máli skiptir að ykkar mati.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maggan þín

Maggan þín (IP-tala skráð) 3.1.2007 kl. 09:03

2 identicon

Gleðilegt ár! Takk sömuleiðis fyrir góðar stundir á Akureyri um jólin. Ég vinn þig næst í Scrabble! ;) Ég er farinn að skilja hvaðan ég hef þessa pælinga-þörf. Sjaldan fellur eplið...  :) En manstu eftir bókinni Pælingar eftir Pál Skúlason?

Magnús. 

Magnús (IP-tala skráð) 8.1.2007 kl. 22:11

3 Smámynd: Jón Baldvin Hannesson

Já, já, bæði bæði Pælingum I og Pælingum II. Páll svíkur ekki.

Jón Baldvin Hannesson, 14.1.2007 kl. 15:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Íhugun JBH

Höfundur

Jón Baldvin Hannesson
Jón Baldvin Hannesson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband