7.9.2006 | 01:15
Um Jöklu, Kringilsá og Jökulsá á Fljótsdal
Við Magga fórum í helgarferð 26. og 27. ágúst með Augnabliki/Hálendisferðum á Kárahnjúkasvæðið, eða réttara sagt svæðið kringum Snæfell. Það orkaði sterkt á mann að ganga um lónstæðið, allt frá yfirborði við Töfrafoss og niður á yfir 100 metra dýpi, þegar mið er tekið af fyrirhuguðu vatnsborði. Fyrri daginn var gengið meðfram Kringilsá vestanverðri, að ármótum hennar og Jöklu (Jökulsá á Brú), síðan niður með ánni, að Sauðá sem er mjög nálægt stóru stíflunni við Kárahnjúka. Seinni daginn voru gengnir um 20 kílómetrar meðfram Jökulsá á Fljótsdal, frá Eyjabakkastíflu og niður með fegurstu fossaröð landsins (og þótt víðar væri leitað). Með Eyjabakkastíflu verður vatninu hleypt í gegnum göng í lónið við Kárahnjúka og áin þurrkuð upp. Þá hverfa milli tuttugu og þrjátíu fossar, ótrúlega fjölbreyttir og hver öðrum tígulegri.
Það voru forréttindi að fá að skoða þetta svæði áður en því verður sökkt. Og það er sorglegt til þess að vita að við skulum ekki bera gæfu til að velja betri leiðir í framfarasókn okkar en að farga stórum hluta fallegra öræfa sem með hverjum deginum verða æ verðmætari sem slík.
Mér finnst alveg merkilegt hvað fáir svara staðhæfingum um að það séu nú bara tilfinningaleg rök sem beitt er af þeim sem gagnrýna verknaðinn. Landeyðendur telja að tilfinningarök séu veik og standist ekki röksemdir fjármagns og framfara sem séu hlutlæg vísindi. Þetta er tómt bull. Rök þeirra sem telja landið lítils virði byggjast ýmist á ótta eða græðgi, sem hvoru tveggja eru jafn "óraunsæjar" tilfinningar og náttúrverndarsinnar nota. Græðgin skýrir sig sjálf en óttinn getur verið margþættur. Líklegast að hann sé í þessu máli ýmist við að missa af eigin velmegun eða þjóðarinnar. Sá ótti er trúlega ástæðulaus eins og Andri Snær hefur svo snilldarlega sett fram í Draumalandinu. Auk þess sem áhöld eru uppi um arðsemi og atvinnusköpun sem ósköpunum fylgja. Virkjunarsinnar stjórnast ekkert síður af tilfinningum en náttúruverndarsinnar. Það eru bara aðrar tilfinningar sem fá forgang. Og þeir sem ekki hafa sterkar skoðanir í málinu eru hræddir af landeyðendum með því að ef við ekki virkjum verði atvinnuleysi og eymd yfirvofandi. Sem sagt spilað á tilfinningar manna frekar en að mál séu krufin til mergjar.
Ég læt hér fylgja nokkrar ljósmyndir úr gönguferðinni okkar en ræð ykkur eindregið til að skoða einnig stutt myndband sem Chris Lund hefur sett saman með eigin ljósmyndum og tónlist með Damien Rice. Það getur gefið ykkur góða mynd af því sem þarna er verið að farga. Slóðin að myndbandinu er: http://chris.is/blog/?page_id=276. Hafið vasaklút við hendina. Bendið síðan öðrum á myndbandið.
Um bloggið
Íhugun JBH
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.