4.4.2006 | 20:37
Vefur vanans II
Að láta vanann ná tökum á sér er að byrja að deyja. (Miguel De Unamuno)___
Ímyndum okkur að við séum að leggja af stað akandi umhverfis jörðina. Sjáum fyrir okkur að við ferðumst á 100 km./klst. og hvergi yrðu höf, vötn eða fjöll til að hindra okkur og vegurinn gæti því verið þráðbeinn. Vitið þið hvað við værum lengi að aka jarðarhringinn? ___
... Rúmlega 400 klst. eða 16 sólarhringa og 17 klst.___
Sjáum nú fyrir okkur að aftan úr bílnum sem við ökum alla þessa leið drögum við örfínan köngulóarþráð og að eftir alla ökuferðina nái þráðurinn í kringum jörðina. Getið þið giskað á hvað þessi þráður yrði þungur? ___
... U.þ.b. 2 kíló.___
það er ekki mjög erfitt að slíta þennan þráð, hvaða smábarn sem er gæti gert það. Hann myndi að vísu togna svolítið áður en hann slitnaði en það væri engin fyrirstaða. EF við hins vegar snúum saman marga slíka þræði þá verður þessi veikburða þráður ekki aðeins sterkari, heldur fær eiginleika sem gera það að verkum að fá efni á jörðinni standast honum snúning. Úr slíkum vef má t.a.m. gera skothelt vesti, sterkara en unnt er að gera úr nokkru því efni sem þekkt er. Hvorki stálþræðir né neinir aðrir þræðir sem notaðir eru í slík vesti í dag standast þessu fínlega efni snúning. Samofnir verða þessir veikbyggðu þræðir að einhverju öflugasta efni sem við þekkjum - óslítanlegu - jafnvel þótt á það sé skotið byssukúlu.___
Á svipaðan hátt og unnt er að flétta saman köngullóarþráð í skothellda flík mynda þræðir vanans allt að því órjúfanleg bönd. Hinir fínlegu þræðir sem við endurtekið athæfi virðast myndast í sál okkar verða að lokum að ógnarsterkum vef - vef sem stundum virðist ekki í mannlegu valdi að slíta. Vefur vanans líkist að ýmsu leyti skothelda vestinu.___
Ýmsir taka svo djúpt í árinni að segja að maðurinn sé ekkert nema vani. Hvort sem við tökum undir það eða ekki þá getum við verið viss um að vaninn ræður miklu um það hver við erum og hvernig við erum. Hvort sem vefur þessi er ofinn af okkar eigin gerðum og hugsunum, skoðunum annarra á okkur, eða verður til í samspili þessara þátta, þá getum við verið viss um að vefur sjálfsmyndarinnar í sál okkar er sterkur. ___
Ef vaninn er svona sterkur er þá ekki útilokað að breyta fólki?
Nei, með því að bæta hægt og bítandi inn nýjum/jákvæðum þráðum má vissulega leggja smám saman grunn að breytingum. Okkur kann að finnast það ganga hægt og að við sjáum lítið breytast en þegar upp verður staðið mun fjöldi smárra atriða mynda nýjan grunn sem hægt verður að byggja á til frambúðar. Við þurfum að hugsa í því efni rétt eins og íþróttamaður sem þjálfar sig í mörg ár fyrir ólympíuleika. Skrefin eru smá og stundum koma bakslög en með nógu mikilli iðni og þrautseigju þá náum við árangri.
Um bloggið
Íhugun JBH
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.