29.5.2006 | 21:41
Veruleiki fjölmiðla
Hugleiði stundum hvað fréttir geta gefið bjagaða mynd af raunveruleikanum. Ekki að raunveruleikinn sé bara einn, heldur verður sjónarhornið svo þröngt að aukaatriði verða aðalatriði og öfugt. Sárasjaldan er leitað að mörgum sjónarhornum, málin krufin eða sett í heildarsamhengi.
Gaman væri að fá samantekt á því hve marga klukkutíma á einu ári eru sagðar fréttir af Bandaríkjaforseta í íslenskum ljósvakamiðlum . Þeir skipta þúsundum eða jafnvel tugþúsundum. Sífelld tugga frá endalausum fréttamannafundum um allt og ekkert. Og þegar forkosningar eru þá er efnið svo viðamikið að það er eins og það eigi að duga fyrir öll 50 ríki Bandaríkjanna til að fylgjast með. Oft á tíðum er sem sagt um nauðaómerkilegt fréttaefni að ræða sem litlu sem engu skiptir fyrir Íslendinga. Skýringin er etv. aðgengi að tilbúnum fréttum stórra Bandarískra fréttastöðva og leti eða aðstöðuleysi til að vinna sjálfstætt. Varla trúi ég að fréttamenn telji að þetta sé það sem öllu skiptir að fylgjast með daglega.
Sama sagan er með innlendar fréttir, sumu er fylgst með en öðru lítið sem ekkert. Spjallað er við pólitíkusa, sagt frá frumvörpum og framkvæmdum. Iðulega pælt meira í mönnum en málefnum. Skrafað um einstaklinga og eitthvað um flokka og stefnur þeirra, sérstaklega ef hægt er að finna rifrildi og ákúrur. Og svo er auðvitað sagt frá peningum og viðskiptum með fyrirtæki.
Sjaldnast mikið meira en yfirborðið gárað. Allt er í bútum, að vísu misjafnlega löngum, sem lýsa hluta máls og byggja ekki upp skilning á heildarmyndinni.
Það er af þessum sökum sem við vöknum upp við vondan draum þegar við lesum Draumaland Andra Snæs Magnasonar. Þar eru viðhöfð allt önnur vinnubrögð. Þar er sótt í heimildir af ýmsu tagi og dregin upp stór mynd til að skilja betur mál í heild sinni. Skoðað er frá frumlegu sjónarhorni (hugmynda) og spurt gagnrýninna spurninga. Hafirðu ekki lesið bókina þá skaltu endilega gera það. Þú færð aðra sýn á álæðið, því er hægt að lofa.
Fréttir brengla jafnframt verðmætamat með því að fjalla svo til eingöngu um fræga, fjáða og fallega fólkið. Slúðurblöð, kvikmyndir og fleira hjálpa reyndar einnig til við það. Þeir sem komast þar að virðast vera þeir einu sem fá vægi í veruleika fjölda fólks, ekki síst barna og unglinga. Þau vilja verða fræg, fjáð og falleg því það gerir þau einhvers virði þannig að allir dáist að þeim. Skiljanlega, þetta er heimurinn sem börnin verða vitni að, þeirra raunveruleiki.
Umfjöllun fjölmiðla er um útlit þessa fólks, neyslu, skemmtanavenjur, heimili, bíla, kynlíf, framhjáhald og sorgir. Það er valið kynþokkafyllst, þeir sem klæða sig best/verst, sagt frá því hvar það sást, með hverjum og hvernig það var klætt. Yfirborðsmennskan algjör, lágkúran endalaus.
Þetta er það sem er mikilvægt. Þetta er það sem er til umfjöllunar. Þetta er raunveruleiki barna okkar. Engin furða að þau tapi sér í eftirsókn eftir vindi. Engin furða að þegar Sylvía Nótt gerði grín að frægðinni snérist það upp í andhverfu sína og varð að frægðardýrkun sem hún og hálf þjóðin töpuðu sér í.
Æi, kannski er ég bara orðinn gamall nöldurseggur. En það er líka leyfilegt, þótt ekki sé það fjölmiðlavænt.
Um bloggið
Íhugun JBH
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.