15.5.2006 | 22:18
Flugvöllur Reykvíkinga
Við Íslendingar erum ekki samheldið samfélag. Við erum samsafn lítilla kónga og drottninga sem taka afstöðu í flestum málum út frá ég um mig frá mér til mín hugsunarhætti. Tilfinning fyrir heildinni, samfélagi íslendinga, er takmörkuð og skilningur á þörfum heildarinnar einungis til í fáum málum. Við samsömum okkur ákveðnum hópum, aðallega út frá skoðunum, og lítum iðulega niður á aðra hópa með aðrar skoðanir. Sérstaklega þá sem ekki eru sömu skoðunar og við og eru jafnframt búsettir utan okkar nærsamfélags.
Þetta endurspeglast býsna vel í þeirri umræðu sem kölluð hefur verið flugvallarmál og snýst um hvort flytja eigi Reykjavíkurflugvöll burt úr Vatnsmýrinni eða ekki. Þar er svo komið Reykvíkingum finnst aðrir gera óeðlilegar kröfur um aðgengi að þjónustu sem þeir veita og vera að skipta sér af málum sem þeim komi lítið við. Í þeirra augum snýst málið um að leysa uppsafnaðan skipulagsvanda í tengslum við mannlíf í miðbæ Reykjavíkur, nafla eigin alheims.
Skilningur minn á Hringbrautarhugsunarhættinum er litaður af því að ég bý ekki þar og samsama mig honum því ekki. Langar mig að færa hér nokkur rök fyrir þeirri skoðun minni að flytja eigi flugvöllinn til Keflavíkur og byggja Keflavík jafnframt upp sem höfuðborg landsins. Í Keflavík er flugvöllur fyrir hendi og einnig húsnæði fyrir margt af því sem byggja þyrfti upp. Annað þarf að byggja frá grunni og er nóg landrými til þess, líklega ódýrt í þokkabót. Kannski finnst einhverjum ég vera einfaldur og setja fram vanhugsaðar hugmyndir og verður þá svo að vera.
Flestar sameiginlegar eignir landsmanna eru í Reykjavík. Felast þær ekki síst í opinberum stofnunum og fyrirtækjum, þeirri þjónustu sem þær veita og störfum sem þær skapa. Hér má nefna Stjórnarráð Íslands, öll ráðuneyti og flestar tengdar stofnanir. Þeim tengjast þúsundir eða réttara sagt tugþúsundir starfa og fylgir þeim flæði fólks og fjármagns í tengslum við erindrekstur, fundi, námskeið, ráðstefnur og þjónustu af ýmsu tagi sem þarf að sækja til þeirra.
Til að gefa lauslega hugmynd um nokkrar stofnanir sem athuga þarf flutning á birti ég hér ófullkominn lista yfir stofnanir sem fjármagnaðar úr sameiginlegum sjóðum landsmanna en hafa hingað til f.o.f. skilað Reykvíkingum arði vegna staðsetningarinnar:
Alþingi
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins
Barnaverndarstofa
Biskupsstofa og kirkjumál
Brunamálastofnun
Byggðastofnun
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
Einkaleyfastofan
Fasteignamat ríkisins
Félagsmálaráðuneytið
Fiskistofa
Fjármálaráðuneytið
Flugmálastjórn
Fornleifavernd ríkisins
Forsetaskrifstofa
Forsætisráðuneytið
Hafrannsóknastofnun
Hagstofa Íslands
Háskóli Íslands og tengdar stofnanir
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
Húsafriðunarnefnd
Hæstiréttur
Iðnaðarráðuneytið
Iðntæknistofnun
Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna
Íslensk málstöð
Íslenski dansflokkurinn
Kennaraháskóli Íslands
Kvikmyndamiðstöð Íslands
Kvikmyndasafn Íslands
Kvikmyndaskoðun
Kærunefndir af ýmsu tagi
Landbúnaðarráðuneytið
Landsbókasafn-Háskólabókasafn
Landsspítali - Háskólasjúkrahús
Lánasýsla ríkisins
Listasafn Einars Jónssonar
Listasafn Íslands
Menntamálaráðuneytið
Náttúrufræðistofnun
Norðurlandaskrifstofan
Nýtt Tónlistarhús kostar marga milljarða úr sameiginlegum sjóðum landsmanna
Orðabók Háskólans
Orkustofnun
Rafmagnsveitur ríkisins
Rannsóknarnefndir - fjölmargar
Rannsóknarstofnanir fjölmargar
Ratsjárstofnun
Ríkiskaup
Ríkislögmaður
Ríkislögreglustjóri
Ríkisskattstjóri
Ríkistollstjóri
Ríkisútvarpið
Samband íslenskra sveitarfélaga
Samgönguráðuneytið
Seðlabankinn
Siglingastofnun
Sinfóníuhljómsveitin
Sjávarútvegsráðuneyti
Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna
Sjóðir af öllum mögulegum stærðum og gerðum
Stofnun Árna Magnússonar
Stofnun Sigurðar Nordals
Tryggingastofnun
Umferðarstofa
Umhverfisráðuneytið
Utanríkisráðuneytið
Úrvinnslusjóður
Útlendingastofnun
Veðurstofan
Vegagerðin
Veiðimálastofnun
Viðskiptaráðuneyti
Vinnumálastofnun
Þjóðhagsstofnun
Þjóðleikhús
Þjóðmenningarhús
Þjóðminjasafn
Þjóðskjalasafn
Þróunarsamvinnustofnun
Auðvitað þarf að fullkomna þennan lista og fá nánari upplýsingar um þær tugþúsundir starfa sem fylgja til undirbúa málið vel. Það verður mikið flæði fólks og fjármagns úr Reykjavík þegar þessar gullkýr verða fluttar og gaman að velta fyrir sér hvort hin nýja höfuðborg sýnir ekki betri þjónustulund og skilning á hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna.
Í kjölfarið myndu síðan stórfyrirtæki eins og stóru bankarnir flytja höfuðstöðvar sínar um set, líklega sendiráðin, skrifstofur stéttarfélaga osfrv.
Flugvöllur í Vatnsmýri snýst að sjálfsögðu um hlutverk höfuðborgar, ekki aðeins í tengslum við öryggismál og Landsspítala Háskólasjúkrahús, heldur með tilliti til þess hvaða sameiginlegu stofnanir eiga að veita öllum þjónustu án mikils tilkostnaðar í ferðum og tíma.
Reykvíkingum hefur hingað til ekki þótt tiltökumál þótt eitthvert krummaskuð eigi undir högg að sækja, að ég tali nú ekki um hvort einhver miðbæjarræfill þar er að rotna niður eða skipulagsmál til vandræða. Þeir hlusta bara á sitt Ríkisútvarp, ræða um sitt veður og sína eigin umferðarhnúta og sín eigin áhugamál. Þeir gagnrýna afæturnar á landsbyggðinni þegar einhverjar krónur renna annað en til þeirra sjálfra því það er svo óarðbært. Þannig er þeirra heimur og þannig verður hann líklega áfram.
Svo ég segi bara: Skítt með það þótt þeir fokki upp sínum skipulagsmálum og haldi áfram að byggja upp bandarískt úthverfanet og bílaborg. Ekki vorkenni ég þeim. Hverjum finnst lífsnauðsynlegt að hjálpa þeim að lífga við eldgamlan miðbæ sem löngu er farinn annað? Er ekki bara allt í lagi að þeir sitji sjálfir uppi með sitt klúður og leysi það ekki á kostnað okkar hinna? Finnst ekki fleirum en mér nóg komið af frekju og skilningsleysi?
Flytjum flugvöllinn og flytjum höfuðborgina. Það er smart lausn. Þá geta Reykvíkingar virkilega farið að pæla í því hverjir eru afætur.
Um bloggið
Íhugun JBH
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.