4.5.2006 | 22:46
Fjárhagsleg viðmið
Er það ekki merkilegt í allri samræðu nútímans að þegar notuð eru rök sem eru fjárhagslegs eðlis þá er alhæft að þau séu hlutlæg og fagleg en þegar notuð eru rök sem höfða til alls hins besta í manninum, fegurðarskyns, sköpunar, umhyggju og virðingar fyrir sjálfum sér og náttúrunni er talað um tilfinningasemi og óhlutlægni?
Hvernig er tilfinningalaus einstaklingur? Hvernig kemur hann fram við maka sinn og börn? Á hverju byggir hann lífsnautnir sínar? Hvaða fegurð skynjar hann? Hvað drífur hann áfram? Fyrir hvern er hann til? Hverjum sýnir hann umhyggju?
Getur verið að tilfinningalaus maður sé ekki til? Getur verið að á bak við fjárhagslegu rökin búi ekkert síður tilfinningar og jafnvel enn sterkari tilfinningar en búa að baki öðrum rökum? Ég er ekki frá því að þannig sé því einmitt varið. Sá sem lætur fjárhagsleg viðmið ráða lífi sínu stjórnast iðulega annað hvort af ótta og óöryggi eða jafnvel græðgi en undirrót græðginnar er jú í flestum tilfellum ótti og óöryggi.
Ég er kominn á þá skoðun að fjárhagsleg rök séu tilfinningalegri en önnur rök. Að endalaus sókn eftir auði er oftar en ekki byggð á sterkum neikvæðum tilfinningum. Og ég held að það sé búið að sýkja svo vestræna menningu af þessari vitleysu að sjálfsmynd heilu kynslóðanna sé orðin veikluleg og vitlaus. Sókn eftir viðurkenningu fyrir fegurð, frægð eða fjármagn er markmið milljóna manna. Þeirra sem gera sér ekki grein fyrir að rótin, tilfinningin á bak við, er þörf fyrir ást og vináttu og viðurkenningu. Þörf sem í raun er ekki hægt að mæta nem vera einhvers virði fyrir aðra, með því að gefa af sér með fjölbreytilegum hætti, skapa gleði, vera virkur með öðrum, ná árangri sem leiðir til einhvers góðs fyrir einstaklinga og samfélög.
En við lifum á öld óttans. Tímum græðginnar. Í ríki fjárhagslegra viðmiða.
Nema skamma stund í kjölfar þess að einhver nákominn deyr.
Um bloggið
Íhugun JBH
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.