Færsluflokkur: Bloggar

Hættum að kaupa bandarískar vörur!

Barnamorð Ísraela í Líbanon

Mikið er maður ónýtur, situr bara hjá og lætur sem maður geti ekkert gert meðan fasistar í Ísrael myrða fjölda óbreyttra borgara í nafni sjálfsvarna. Dyggilega studdir af bandarísku fjármagni, milljörðum á milljarða ofan, og  handónýtum og spilltum stjórnmálamönnum brjóta þeir gegn öllum siðferðilegum viðmiðum og alþjóðlegum sáttmálum. Hundsa trúarleg, siðferðileg og félagsleg gildi.

Sæjuð þið fyrir ykkur jafn aumingjalega framkomu og fullkomið ráðaleysi evrópskra ráðamanna ef þetta hefði verið öfugt, Palestínumenn væru að slátra almenningi í Ísrael með markvissum hætti?

Sætu íslenskir ráðamenn með hendur í skauti ef um kristna þjóð væri að ræða, ég tala nú ekki um evrópska?

Ég er fyrir nokkru síðan hættur að kaupa ísraelskar vörur. Nú hætti ég að kaupa bandarískar vörur. Það er það minnsta sem ég get lagt á vogarskálarnar. Ég veit að það munar ekkert um mig en ef nógu margir tækju sig til þá gætu áhrifin orðið mikil. Í dag er fjármagnið komið í stað hjartans hjá hinum vestræna heimi og ef við tökum höndum saman má beygja hvaða fasista sem er.

Hættum að styðja Ísrael og Bandaríkin með beinum og óbeinum hætti. Látum þá finna að okkur er ekki sama. Stöðvum vitfirringuna.

Myrkur getur ekki hrakið burt myrkur, einungis ljós getur gert það. Hatur getur ekki hrakið burt hatur, einungis kærleikur getur gert það. -Dr. Martin Luther King Jr.

SMELLTU Á FYRIRSÖGNINA EF ÞÚ TREYSTIR ÞÉR Í FLEIRI MYNDIR.


Fleiri myndir

Speki Búddista

Rifrildi

Viljirðu kynnast fortíðinni skaltu líta á núverandi aðstæður þínar. Viljirðu þekkja framtíðina skaltu líta á gjörðir þínar í dag.

Hafðu hugann opinn og líf þitt verður auðveldara. Sé matskeið af salti sett í vatnsglas verður vatnið ódrekkandi. Sé matskeið af salti sett í stórt stöðuvatn finnst tæplega munurinn.

Þér verður ekki refsað fyrir reiði þína. Þér verður refsað af reiði þinni.

Menn hræðast eðlilega ógæfu og þrá velgengni. Við nána skoðun kemur í ljós að ólán er iðulega dulbúið happ og velgengni að sama skapi ógæfa. Hinn vitri lærir að taka öllu sem að höndum ber með jafnaðargeði, ofmetnast hvorki af velgengni né örvæntir yfir óhappi.

Við verðum það sem við hugsum.

Sársauki er óumflýjanlegur. Þjáning er val.

Heit sólin bræðir snjóinn; þegar reiðin birtist hverfur skynsemin.


HM leiðindi

Flottir stuðningsmenn Ghana

Ég er ekki sáttur. Leiðinlegu liðin vinna næstum alltaf þau sem eru skemmtilegri. Englendingar halda áfram með svo lélegum leik að maður verður hálf þunglyndur af því að horfa á hörmungarnar. Frakkar sigra Spánverja með því að svæfa þá úr leiðindum. Brassar, sem eiga til að leika skemmtilega þótt þeir hafi ekki gert það á þessu móti, þurftu endilega að vinna Ghana sem var spilaði stórskemmtilega knattspyrnu þótt þeir klikkuðu á rangstöðutaktíkinni. Svona mætti áfram telja. Hef að vísu ekki séð alla leiki en get ímyndað mér hversu skemmtilegur leikurinn hefur verið hjá Sviss og Úkraínu.

En auðvitað eru jákvæðir punktar í þessu líka þótt þeir séu fáir. Þýskaland hefur spilað stórskemmtilegan bolta, sérstaklega ef mið er tekið af sögu þeirra og hefðum. Portúgalir eru býsna sprækir og Argentínska liðið hefur sýnt frábær tilþrif þótt reyndar hafi Mexíkanar ekki verið síður sprækir, nema auðvitað í framlengingunni en þá virtist úthaldið búið.

Jæja, þá er loks að giska á niðurstöður leikja í 8 liða úrslitum. Þýskaland - Argentína 2-2 og Argentína vinnur vítaspyrnukeppnina. Ítalía - Úkraína 1-0 í slöppum leik. England - Portúgal 0-2. Og loks Brasilía - Frakkland 2-1.

Og svo er bara að halda áfram að svekkja sig!  Eða fylgjast bara með áhorfendum af báðum kynjum!  Eða gera eins og englendingurinn og vinkona mín Diane Rich, halda með liðinu sem er í flottustu sokkunum! Kannski er það álíka gáfulegt viðmið um gæði þegar upp er staðið og að hafa skoðun á  gæðum knattspyrnunnar. (það þarf víst að smella á fleiri myndir hér fyrir neðan til að hin myndin birtist)


Fleiri myndir

Jónsmessunótt

Linsa í kók

Fór í Drangeyjarsiglingu á Jónsmessunni, nánar tiltekið föstudagskvöldið 23. júní kl. 22-02:30. Góð leið til að njóta íslenskrar náttúru og glíma við skemmtilegt myndefni. Fékk að vísu ekki miðnætursólina til að gylla bergið eins og ég var að vonast eftir en engu að síður lygnt og gott veður. Vegna skýja var birtan heldur lítil þegar dimmast var þannig að þetta voru ekki bestu skilyrði til myndatöku. Náði samt nokkrum þokkalegum myndum.

Við eyjuna er lítil steypt bryggja þar sem drangeyjarjarlinn, Jón Eiríksson, lagði bátnum að. Og þar varð slysið. Nýja Canon 10-22 linsan fór í sjóinn. Ég hafði verið að bogra við linsuskipti og einhver rakst utan í mig, ég missti jafnvægið og horfði á hvar linsan rúllaði eftir bryggjukantinum og ofan í hafið. Í bátnum var háfur og hófust björgunartilraunir strax þótt ekki sæist til linsunnar. Þær báru engan árangur svo við enduðum með að ganga upp á eyjuna, hlusta á sögur leiðsögumanns og skoða bjargið og fuglana. Báturinn fór í land að ná í fleiri ferðamenn.

Eftir um tveggja og hálfs tíma dvöl var komið niður aftur. Þá hafði fjarað talsvert og því auðveldara að beita háfnum úr bátnum. Og viti menn. Linsan kom í hann og upp á land. Nú voru góð ráð dýr. Í bátnum var 2ja lítra kókflaska með vatni í og í hana fór linsan. Markmiðið að sjálfsögðu að reyna að skola burtu saltið eða alla vegana leysa það sem mest upp. Eftir siglingu meðfram Reykjaströnd og Tindastóli var ekið áleiðis heim til Akureyrar. Þar var linsan sett í enn meira skol og síðan reynt að þurrka hana sem hraðast með hárblásara. Linsan höfð í viskastykki til að verja hana en fá hitann frá blásaranum.

Því miður voru björgunartilraunir árangurslausar. Húðin á glerjunum er augljóslega ónýt og líklegt að rafeindabúnaðurinn sé skemmdur líka. Þetta síðara þarf að fá endanlega staðfest hjá fagaðilum en skv. áætlun þeirra, í símtali, er ólíklegt að viðgerð svari kostnaði.

Jæja, ég í VÍS á mánudagsmorgunn og giskið á viðbrögðin þar. Jamm, engar bætur. Og ég sem hef tryggt hjá þeim í hátt í 30 ár og lítið þurft að leita til þeirra. Taldi mig vera eins vel tryggðan og mögulegt var. Nei, það þurfti þessa eða hina aukatrygginguna til að það gengi upp! Mér reiknast til að ég hafi greitt vel yfir 3 milljónir að núvirði, miðað við greiðslur mínar í dag, í sjóði VÍS. Það eina sem mér var boðið var að bæta við tryggingarnar og borga þeim meira! Ég sagði nei takk og langar mest til að skipta um tryggingafélag þótt ég geti ekki losnað fyrr en eftir 9 mánuði. Ný linsa kostar milli 80 og 90 þús. hér á landi, fer eftir gengi, og fæst ekki fyrr en eftir einhvern tíma. Ég sem hlakkaði mikið til að nota hana þegar ég geng Laugaveginn í byrjun júlí. Hversu óheppinn getur maður verið á Jónsmessunni, sem meira að segja heitir í hausinn á mér, eða þannig.


HM sumar

Didier Drogba Fílabeinungur

Hmm, það er komið HM sumar og þá er tímabært að endurnýja sjónvarpið, alveg eins og síðast þegar var HM sumar. Veit ekki hvort þetta er skynsamlegt en alla vega er þetta skemmtilegt. 40" LCD Samsung gæðatæki með DVD skrifara og svona í leiðinni heimabíómagnari og 3 timbur Castle hátalar til viðbótar við þá tvo sem fyrir voru.

Úps, ég fæ hálfgerðan móral eftir svona geðveikisköst, sérstaklega af því ég er ekki fótbotafíkill svona dags daglega. Ég reyni bara að hugga mig við tæra myndina og geðveikan hljómburðin. Gerist ekki betra. Ég hlýt að vera búinn að "höndla hamingjuna" eins og við köllum það á mínu heimili.

Ég freistast til að halda með lítilmagnanum og vona að einhver minni lið komi á óvart og stríði þeim stóru, stirðu og hrokafullu. Þá er þetta fullkomið! Horfði á hrútlélega Englendinga ná í þrjú heppnisstig í dag. Vona að þeir grísist ekki til að komast áfram á svona leiðindum. Ég tala nú ekki um með hina hlutdrægu og slöppu Sýnarlýsendur í eyrunum. Sá fríska Fílabeinunga stríða einu af toppliðunum, Argentínu. Sá bara síðasta hlutann en það var gaman. Vona að komi fleiri svoleiðis frísk lið, full af krafti og skapandi skemmtilegheitum.

Áfram minni spámenn! áfram HM!


Veruleiki fjölmiðla

d_ljosmyndir_00myndiraphotonet_7300-94araverslmaer.jpg

Hugleiði stundum hvað fréttir geta gefið bjagaða mynd af raunveruleikanum. Ekki að raunveruleikinn sé bara einn, heldur verður sjónarhornið svo þröngt að aukaatriði verða aðalatriði og öfugt. Sárasjaldan er leitað að mörgum sjónarhornum, málin krufin eða sett í heildarsamhengi.

Gaman væri að fá samantekt á því hve marga klukkutíma á einu ári eru sagðar fréttir af Bandaríkjaforseta í íslenskum ljósvakamiðlum . Þeir skipta þúsundum eða jafnvel tugþúsundum. Sífelld tugga frá endalausum fréttamannafundum um allt og ekkert. Og þegar forkosningar eru þá er efnið svo viðamikið að það er eins og það eigi að duga fyrir öll 50 ríki Bandaríkjanna til að fylgjast með. Oft á tíðum er sem sagt um nauðaómerkilegt fréttaefni að ræða sem litlu sem engu skiptir fyrir Íslendinga. Skýringin er etv. aðgengi að tilbúnum fréttum stórra Bandarískra fréttastöðva og leti eða aðstöðuleysi til að vinna sjálfstætt. Varla trúi ég að fréttamenn telji að þetta sé það sem öllu skiptir að fylgjast með daglega.

Sama sagan er með innlendar fréttir, sumu er fylgst með en öðru lítið sem ekkert. Spjallað er við pólitíkusa, sagt frá frumvörpum og framkvæmdum. Iðulega pælt meira í mönnum en málefnum. Skrafað um einstaklinga og eitthvað um flokka og stefnur þeirra, sérstaklega ef hægt er að finna rifrildi og ákúrur. Og svo er auðvitað sagt frá peningum og viðskiptum með fyrirtæki.

Sjaldnast mikið meira en yfirborðið gárað. Allt er í bútum, að vísu misjafnlega löngum, sem lýsa hluta máls og byggja ekki upp skilning á heildarmyndinni.

Það er af þessum sökum sem við vöknum upp við vondan draum þegar við lesum Draumaland Andra Snæs Magnasonar. Þar eru viðhöfð allt önnur vinnubrögð. Þar er sótt í heimildir af ýmsu tagi og dregin upp stór mynd til að skilja betur mál í heild sinni. Skoðað er frá frumlegu sjónarhorni (hugmynda) og spurt gagnrýninna spurninga. Hafirðu ekki lesið bókina þá skaltu endilega gera það. Þú færð aðra sýn á álæðið, því er hægt að lofa.

Fréttir brengla jafnframt verðmætamat með því að fjalla svo til eingöngu um fræga, fjáða og fallega fólkið. Slúðurblöð, kvikmyndir og fleira hjálpa reyndar einnig til við það. Þeir sem komast þar að virðast vera þeir einu sem fá vægi í veruleika fjölda fólks, ekki síst barna og unglinga. Þau vilja verða fræg, fjáð og falleg því það gerir þau einhvers virði þannig að allir dáist að þeim. Skiljanlega, þetta er heimurinn sem börnin verða vitni að, þeirra raunveruleiki.

Umfjöllun fjölmiðla er um útlit þessa fólks, neyslu, skemmtanavenjur, heimili, bíla, kynlíf, framhjáhald og sorgir. Það er valið kynþokkafyllst, þeir sem klæða sig best/verst, sagt frá því hvar það sást, með hverjum og hvernig það var klætt. Yfirborðsmennskan algjör, lágkúran endalaus.

Þetta er það sem er mikilvægt. Þetta er það sem er til umfjöllunar. Þetta er raunveruleiki barna okkar. Engin furða að þau tapi sér í eftirsókn eftir vindi. Engin furða að þegar Sylvía Nótt gerði grín að frægðinni snérist það upp í andhverfu sína og varð að frægðardýrkun sem hún og hálf þjóðin töpuðu sér í.

Æi, kannski er ég bara orðinn gamall nöldurseggur. En það er líka leyfilegt, þótt ekki sé það fjölmiðlavænt.


Silvíjúsjón

flognudmalningvelvia.jpg

Allir hafa skoðun á Silviu, einnig ég. Margir eru mjög hrifnir og mörgum finnst hún ömurleg. Ég er nær seinni hópnum þótt ég fari ekkert á taugum yfir leikritinu.

Ég er voða feginn að Silvia komst ekki áfram í Evróvisjón. Skammaðist mín fyrir framkomuna sem fólst í að úthúða grískum þjónum eða svívirða aðra keppendur. Finnst að enginn eigi skilið hrós og velgengni fyrir frammistöðu sem byggist aðallega eða næstum eingöngu á því að ganga fram af fólki. Fara markvisst yfir strikið, siðferðilegu mörkin, félagslegu viðmiðin. Slíkt grín getur verið gott í hófi, stundum bráðfyndið, eins og sumt sem Silvian hefur leikið. Stöðug síbylja af því tagi er langt í frá fyndin, verður í besta falli pirrandi og heimskuleg.

Það getur verið fyndið að setja upp leikþátt þar sem alþingismenn eru í sandkassaleik. Slík sena hættir síðan að vera fyndin ef henni er haldið áfram í það endalausa, eða ef reynt er að fara með hana á þingfundi. Jafnvel þótt reynt sé að ganga sífellt lengra í skrípóinu. Steve Martin hættir að vera fyndinn ef hann kemst ekki út úr hlutverkinu og þú þarft að hlusta stöðugt á sömu fíflalætin, við upptökur og utan sviðs. Allt í lagi fyrst, en svo...

Ef ég myndi ætla að beita sömu tækni á Silviuliðið og það sjálft beitir myndi ég kannski segja: Þessi sjálfumglaða hóra sem liggur undir hverjum sem er, sko, er bara beiðandi bitch. Þessi fokking fyllibytta og fáviti sem ríður Páli Magnússyni til að fá undanþágu frá keppnisreglum er bara lúser og lágmenning. O.s.frv. o.s.frv.

Einhverjum kynni að þykja svona fyndið, jafnvel ótrúlega fyndið. En varla til lengdar. Ef ég vildi verða frægur fyrir svona orðfæri og sóðakjaft og hefði ekkert annað til brunns að bera þá myndi það duga skammt.

Mér finnst í raun afskaplega fyndið þegar aðstandendur og/eða aðdáendur kvarta yfir því að einhverjir skilji ekki "djókið." Það sem VAR fyndið var að gera grín að innantómri útlits- og frægðardýrkun. Þá var Silviuleikritið stundum fyndið. Nú hefur það ekkert góðlátlegt eða kvikindislegt grín að geyma lengur. Bara hreina og tæra ofnotkun á sama brandaranum og tilraunir til að ganga fram af öllum.

Ha, ha, ha, þarna kom örstutt sena sem var fyndin. Annars bara þreytt, þreytt, þreytt..., lágkúra, lágkúra, lágkúra..., aftur það sama, aftur það sama, aftur það sama...

Hitt er svo annað mál að þetta er bara mín skoðun og alger óþarfi að vera sammála mér varðandi skopskyn eða önnur smekksatriði. Það besta við mannkynið er að við erum ekki öll eins!


Flugvöllur Reykvíkinga

Á haus

Við Íslendingar erum ekki samheldið samfélag. Við erum samsafn lítilla kónga og drottninga sem taka afstöðu í flestum málum út frá „ég – um mig – frá mér – til mín“ hugsunarhætti. Tilfinning fyrir heildinni, samfélagi íslendinga, er takmörkuð og skilningur á þörfum heildarinnar einungis til í fáum málum. Við samsömum okkur ákveðnum hópum, aðallega út frá skoðunum, og lítum iðulega niður á aðra hópa með aðrar skoðanir. Sérstaklega þá sem ekki eru sömu skoðunar og við og eru jafnframt búsettir utan okkar nærsamfélags.

Þetta endurspeglast býsna vel í þeirri umræðu sem kölluð hefur verið flugvallarmál og snýst um hvort flytja eigi Reykjavíkurflugvöll burt úr Vatnsmýrinni eða ekki. Þar er svo komið Reykvíkingum finnst aðrir gera óeðlilegar kröfur um aðgengi að þjónustu sem þeir veita og vera að skipta sér af málum sem þeim komi lítið við. Í þeirra augum snýst málið um að leysa uppsafnaðan skipulagsvanda í tengslum við mannlíf í miðbæ Reykjavíkur, nafla eigin alheims.

Skilningur minn á Hringbrautarhugsunarhættinum er litaður af því að ég bý ekki þar og samsama mig honum því ekki. Langar mig að færa hér nokkur rök fyrir þeirri skoðun minni að flytja eigi flugvöllinn til Keflavíkur og byggja Keflavík jafnframt upp sem höfuðborg landsins. Í Keflavík er flugvöllur fyrir hendi og einnig húsnæði  fyrir margt af því sem byggja þyrfti upp. Annað þarf að byggja frá grunni og er nóg landrými til þess, líklega ódýrt í þokkabót. Kannski finnst einhverjum ég vera einfaldur og setja fram vanhugsaðar hugmyndir og verður þá svo að vera.

Flestar sameiginlegar eignir landsmanna eru í Reykjavík. Felast þær ekki síst í opinberum stofnunum og fyrirtækjum, þeirri þjónustu sem þær veita og störfum sem þær skapa. Hér má nefna Stjórnarráð Íslands, öll ráðuneyti og flestar tengdar stofnanir. Þeim tengjast þúsundir eða réttara sagt tugþúsundir starfa og fylgir þeim flæði fólks og fjármagns í tengslum við erindrekstur, fundi, námskeið, ráðstefnur og þjónustu af ýmsu tagi sem þarf að sækja til þeirra.

Til að gefa lauslega hugmynd um nokkrar stofnanir sem athuga þarf flutning á birti ég hér ófullkominn lista yfir stofnanir sem fjármagnaðar úr sameiginlegum sjóðum landsmanna en hafa hingað til f.o.f. skilað Reykvíkingum arði vegna staðsetningarinnar:

Alþingi

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins

Barnaverndarstofa

Biskupsstofa og kirkjumál

Brunamálastofnun

Byggðastofnun

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið

Einkaleyfastofan

Fasteignamat ríkisins

Félagsmálaráðuneytið

Fiskistofa

Fjármálaráðuneytið

Flugmálastjórn

Fornleifavernd ríkisins

Forsetaskrifstofa

Forsætisráðuneytið

Hafrannsóknastofnun

Hagstofa Íslands

Háskóli Íslands og tengdar stofnanir

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið

Húsafriðunarnefnd        

Hæstiréttur

Iðnaðarráðuneytið

Iðntæknistofnun

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Íslensk málstöð

Íslenski dansflokkurinn

Kennaraháskóli Íslands

Kvikmyndamiðstöð Íslands

Kvikmyndasafn Íslands

Kvikmyndaskoðun       

Kærunefndir af ýmsu tagi

Landbúnaðarráðuneytið

Landsbókasafn-Háskólabókasafn

Landsspítali - Háskólasjúkrahús

Lánasýsla ríkisins

Listasafn Einars Jónssonar

Listasafn Íslands

Menntamálaráðuneytið

Náttúrufræðistofnun

Norðurlandaskrifstofan

Nýtt Tónlistarhús – kostar marga milljarða úr sameiginlegum sjóðum landsmanna

Orðabók Háskólans    

Orkustofnun

Rafmagnsveitur ríkisins

Rannsóknarnefndir - fjölmargar

Rannsóknarstofnanir – fjölmargar

Ratsjárstofnun

Ríkiskaup

Ríkislögmaður

Ríkislögreglustjóri

Ríkisskattstjóri

Ríkistollstjóri

Ríkisútvarpið

Samband íslenskra sveitarfélaga

Samgönguráðuneytið

Seðlabankinn

Siglingastofnun

Sinfóníuhljómsveitin

Sjávarútvegsráðuneyti’

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Sjóðir af öllum mögulegum stærðum og gerðum

Stofnun Árna Magnússonar

Stofnun Sigurðar Nordals

Tryggingastofnun

Umferðarstofa

Umhverfisráðuneytið

Utanríkisráðuneytið

Úrvinnslusjóður

Útlendingastofnun

Veðurstofan

Vegagerðin

Veiðimálastofnun

Viðskiptaráðuneyti

Vinnumálastofnun

Þjóðhagsstofnun

Þjóðleikhús

Þjóðmenningarhús

Þjóðminjasafn

Þjóðskjalasafn 

Þróunarsamvinnustofnun

Auðvitað þarf að fullkomna þennan lista og fá nánari upplýsingar um þær tugþúsundir starfa sem fylgja til undirbúa málið vel. Það verður mikið flæði fólks og fjármagns úr Reykjavík þegar þessar gullkýr verða fluttar og gaman að velta fyrir sér hvort hin nýja höfuðborg sýnir ekki betri þjónustulund og skilning á hlutverki sínu sem höfuðborg allra landsmanna.

Í kjölfarið myndu síðan stórfyrirtæki eins og stóru bankarnir flytja höfuðstöðvar sínar um set, líklega sendiráðin, skrifstofur stéttarfélaga osfrv.

Flugvöllur í Vatnsmýri snýst að sjálfsögðu um hlutverk höfuðborgar, ekki aðeins í tengslum við öryggismál og Landsspítala – Háskólasjúkrahús, heldur með tilliti til þess hvaða sameiginlegu stofnanir eiga að veita öllum þjónustu án mikils tilkostnaðar í ferðum og tíma.

Reykvíkingum hefur hingað til ekki þótt tiltökumál þótt eitthvert krummaskuð eigi undir högg að sækja, að ég tali nú ekki um hvort einhver miðbæjarræfill þar er að rotna niður eða skipulagsmál til vandræða. Þeir hlusta bara á sitt Ríkisútvarp, ræða um sitt veður og sína eigin umferðarhnúta og sín eigin áhugamál. Þeir gagnrýna afæturnar á landsbyggðinni þegar einhverjar krónur renna annað en til þeirra sjálfra því það er svo óarðbært. Þannig er þeirra heimur og þannig verður hann líklega áfram.

Svo ég segi bara: Skítt með það þótt þeir fokki upp sínum skipulagsmálum og haldi áfram að byggja upp bandarískt úthverfanet og bílaborg. Ekki vorkenni ég þeim. Hverjum finnst lífsnauðsynlegt að hjálpa þeim að lífga við eldgamlan miðbæ sem löngu er farinn annað? Er ekki bara allt í lagi að þeir sitji sjálfir uppi með sitt klúður og leysi það ekki á kostnað okkar hinna? Finnst ekki fleirum en mér nóg komið af frekju og skilningsleysi?

Flytjum flugvöllinn og flytjum höfuðborgina. Það er smart lausn. Þá geta Reykvíkingar virkilega farið að pæla í því hverjir eru afætur.


Sama hvað gerist

Það er sama hvað gerist. Alltaf skal einhver finna leið til að taka það alvarlega.

Fjárhagsleg viðmið

Olíubrák

Er það ekki merkilegt í allri samræðu nútímans að þegar notuð eru rök sem eru fjárhagslegs eðlis þá er alhæft að þau séu hlutlæg og fagleg en þegar notuð eru rök sem höfða til alls hins besta í manninum, fegurðarskyns, sköpunar, umhyggju og virðingar fyrir sjálfum sér og náttúrunni er talað um tilfinningasemi og óhlutlægni?

Hvernig er tilfinningalaus einstaklingur? Hvernig kemur hann fram við maka sinn og börn? Á hverju byggir hann lífsnautnir sínar? Hvaða fegurð skynjar hann? Hvað drífur hann áfram? Fyrir hvern er hann til? Hverjum sýnir hann umhyggju?

Getur verið að tilfinningalaus maður sé ekki til? Getur verið að á bak við fjárhagslegu rökin búi ekkert síður tilfinningar og jafnvel enn sterkari tilfinningar en búa að baki öðrum rökum? Ég er ekki frá því að þannig sé því einmitt varið. Sá sem lætur fjárhagsleg viðmið ráða lífi sínu stjórnast iðulega annað hvort af ótta og óöryggi eða jafnvel græðgi en undirrót græðginnar er jú í flestum tilfellum ótti og óöryggi.

Ég er kominn á þá skoðun að fjárhagsleg rök séu tilfinningalegri en önnur rök. Að endalaus sókn eftir auði er oftar en ekki byggð á sterkum neikvæðum tilfinningum. Og ég held að það sé búið að sýkja svo vestræna menningu af þessari vitleysu að sjálfsmynd heilu kynslóðanna sé orðin veikluleg og vitlaus. Sókn eftir viðurkenningu fyrir fegurð, frægð eða fjármagn er markmið milljóna manna. Þeirra sem gera sér ekki grein fyrir að rótin, tilfinningin á bak við, er þörf fyrir ást og vináttu og viðurkenningu. Þörf sem í raun er ekki hægt að mæta nem vera einhvers virði fyrir aðra, með því að gefa af sér með fjölbreytilegum hætti, skapa gleði, vera virkur með öðrum, ná árangri sem leiðir til einhvers góðs fyrir einstaklinga og samfélög.

En við lifum á öld óttans. Tímum græðginnar. Í ríki fjárhagslegra viðmiða.

Nema skamma stund í kjölfar þess að einhver nákominn deyr.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Íhugun JBH

Höfundur

Jón Baldvin Hannesson
Jón Baldvin Hannesson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband