Hamingjuleitin

Sjávarspegill
Að vera hamingjusamur merkir að njóta þess sem lífið hefur uppá að bjóða. Að vera hamingjusamur er hæfni eða færni sem hægt er að efla með sjálfum sér eða þjálfa. Í færninni felst nokkurn veginn tvennt. Í fyrsta lagi að setja sér markmið og ná þeim og í öðru lagi að njóta þess sem maður hefur þegar öðlast. Aðeins fáum tekst hið síðarnefnda.___ Hér er að nokkru leyti um innbyrðis mótsögn að ræða því það að setja sér markmið og stefna að þeim felur í sér óánægju með núverandi ástand. Hættan er því sú að ef maður sökkvir sér um of í markmiðin og vinnuna að þeim nái maður ekki að njóta þess sem maður hefur þegar öðlast. Iðulega finnst manni það svo sjálfsagt að það er ekki fyrr en við missum það, eða hluta þess, sem við íhugum hve mikils virði það er. Þannig er farið manni sem missir hluta af eigum sínum, vin eða fjölskyldumeðlim eða jafnvel heilsuna.___ Það krefst einbeitingar og íhugunar að njóta lífsins og augnabliksins. Þetta er í sjálfu sér útþvæld lumma en þó svo síung glíma. Maður þarf sífellt að beita sig aga til að temja sér þakklæti og gleði og læra að meta lífið.___Mörgum tekst þetta svo illa að þeir eru sífellt að bíða eftir aðstæðum sem geri þeim kleift að njóta lífsins. Þeir eru niðursokknir í að vinna að markmiðum sínum og sjá fyrir sér að þegar þeim verði náð þá verði þeir loks hamingjusamir. Þeir bíða eftir því að ná í maka, ljúka námi, eignast flottan bíl eða hús, börnin vaxi úr grasi eða vinningi í happdrættinu því að þá, loksins þá muni aðstæðurnar laða fram hamingjuna sem þeir hafa beðið eftir. En sú bið verður löng því það eru ekki aðstæðurnar sem valda hamingjunni heldur afstaða okkar, hugsunin sem við temjum okkur, listin að njóta augnabliksins.___
Hið eina sem er algjörlega nauðsynlegt til að njóta lífsins er að vera lifandi. Tilefnin til að þakka og vera ánægður eru í umhverfi okkar vesturlandabúa mun fleiri en þau sem hægt er að kvarta yfir. Samt sem áður eru ýmsir fastir í hugsunargangi sem líkja má við örbirgð. Þeir finna óendanlega mörg tækifæri til að kvarta og lýsa fjálglega hve ömurlega illa aðrir standa sig í að búa þeim góðar aðstæður. Þeir horfa ævinlega útávið, nöldra yfir nákomnum einstaklingum eða fjarlægum, skorti á réttlæti hjá samtökum, stofnunum og fyrirtækjum, lýsa lélegum pólitíkusum og samfélagi sem mismunar þegnunum og hlúir ekki að þeim. Þeir tala ætíð í fortíð, beita ásökunum, reiði, hneikslun og neikvæðni í stórum skömmtum. Þeir ræða sjaldnast um framtíðina, lausnir, umbætur eða hvað þeir sjálfir geti gert með jákvæðri afstöðu, uppbyggilegum markmiðu, lífsgleði eða bjartsýni. Þessum einstaklingum tekst að horfa framhjá öllu hinu góða og afstaða þeirra útilokar þá frá því að njóta lífsins.___
Þú hefur alltaf val um afstöðu þótt þú hafir iðulega ekki val um aðstæður. Þú hefur tækifæri til að temja þér óvirka afstöðu fórnarlambs sem ýtir undir eigin vansæld og annarra eða val um virka, uppbyggilega hugsun þess sem axlar ábyrgð á eigin lífi og tekst á við aðstæður af reisn og skilvirkni.___ Einfalt? Já. Auðvelt? Nei. Auðvitað ekki. Sérstaklega þegar aðstæðurnar verða krefjandi. En geri maður sér grein fyrir þessu og nái að skynja sjálfan sig og möguleika sína hlutlægt, líkt og horft sé úr fjarlægð, má stytta vanlíðunar- og örvæntingartímabil sem upp koma í lífi hvers manns. Auðvelda bataferlið þegar vonleysi hefur náð tökum á manni. Byrja fyrr að vera njóta lífsins aftur.

Vefur vanans III

Bauja
Gættu hugsana þinna, þær verða orð þín;___
gættu orða þinna, þau verða gerðir þínar;___
gættu gerða þinna, þær verða vani þinn;___
gættu vana þíns, hann verður persónuleiki þinn;___
gættu persónuleika þíns, hann verður örlög þín.___
Hillel

Vefur vanans II

Köngullóarþáður umhverfis jörðina

Að láta vanann ná tökum á sér er að byrja að deyja. (Miguel De Unamuno)___

Ímyndum okkur að við séum að leggja af stað akandi umhverfis jörðina. Sjáum fyrir okkur að við ferðumst á 100 km./klst. og hvergi yrðu höf, vötn eða fjöll til að hindra okkur og vegurinn gæti því verið þráðbeinn. Vitið þið hvað við værum lengi að aka jarðarhringinn? ___
... Rúmlega 400 klst. eða 16 sólarhringa og 17 klst.___
Sjáum nú fyrir okkur að aftan úr bílnum sem við ökum alla þessa leið drögum við örfínan köngulóarþráð og að eftir alla ökuferðina nái þráðurinn í kringum jörðina. Getið þið giskað á hvað þessi þráður yrði þungur? ___
... U.þ.b. 2 kíló.___
það er ekki mjög erfitt að slíta þennan þráð, hvaða smábarn sem er gæti gert það. Hann myndi að vísu togna svolítið áður en hann slitnaði en það væri engin fyrirstaða. EF við hins vegar snúum saman marga slíka þræði þá verður þessi veikburða þráður ekki aðeins sterkari, heldur fær eiginleika sem gera það að verkum að fá efni á jörðinni standast honum snúning. Úr slíkum vef má t.a.m. gera skothelt vesti, sterkara en unnt er að gera úr nokkru því efni sem þekkt er. Hvorki stálþræðir né neinir aðrir þræðir sem notaðir eru í slík vesti í dag standast þessu fínlega efni snúning. Samofnir verða þessir veikbyggðu þræðir að einhverju öflugasta efni sem við þekkjum - óslítanlegu - jafnvel þótt á það sé skotið byssukúlu.___

Á svipaðan hátt og unnt er að flétta saman köngullóarþráð í skothellda flík mynda þræðir vanans allt að því órjúfanleg bönd. Hinir fínlegu þræðir sem við endurtekið athæfi virðast myndast í sál okkar verða að lokum að ógnarsterkum vef - vef sem stundum virðist ekki í mannlegu valdi að slíta. Vefur vanans líkist að ýmsu leyti skothelda vestinu.___

Ýmsir taka svo djúpt í árinni að segja að maðurinn sé ekkert nema vani. Hvort sem við tökum undir það eða ekki þá getum við verið viss um að vaninn ræður miklu um það hver við erum og hvernig við erum. Hvort sem vefur þessi er ofinn af okkar eigin gerðum og hugsunum, skoðunum annarra á okkur, eða verður til í samspili þessara þátta, þá getum við verið viss um að vefur sjálfsmyndarinnar í sál okkar er sterkur. ___

Ef vaninn er svona sterkur er þá ekki útilokað að breyta fólki?
Nei, með því að bæta hægt og bítandi inn nýjum/jákvæðum þráðum má vissulega leggja smám saman grunn að breytingum. Okkur kann að finnast það ganga hægt og að við sjáum lítið breytast en þegar upp verður staðið mun fjöldi smárra atriða mynda nýjan grunn sem hægt verður að byggja á til frambúðar. Við þurfum að hugsa í því efni rétt eins og íþróttamaður sem þjálfar sig í mörg ár fyrir ólympíuleika. Skrefin eru smá og stundum koma bakslög en með nógu mikilli iðni og þrautseigju þá náum við árangri.


Vefur vanans I

Bryggjustaurar

"Vaninn er bestur þjóna en verstur herra". (Nathaniel Emmons)

Vaninn er vandmeðfarinn, bæði styrkur í honum og veikleiki. Venji maður sig á eitthvað gott eins og hæfilega hreyfingu og hollan mat er vaninn af hinu góða en venji maður sig á neikvæða hluti er hann verstur óvina.
Verst af öllu er að venja sig á neikvæðar hugsanir, vantrú á sjálfan sig eða jafnvel oftrú, vandlætingu í garða annarra, nöldur, tilætlunarsemi eða vanþakklæti. Best er þegar manni tekst að temja sér þakklæti, bjartsýni og gleði, trú á að maður sé virkur áhrifavaldur í eigin lífi en ekki leiksoppur ytri aðstæðna.
Eins og aðrir dauðlegir menn tekst mér misjafnlega vel upp með að temja mér það góða sem ég þrái. Fell stundum í þá gryfju að verða neikvæður, leiksoppur aðstæðna, fórnarlamb illra afla sem rekja má til vondra manna, þá verður veröldin táradalur. Ég á bágt af því að þessi eða hinn skilur mig ekki, tekur ekki tillit til mín eða vinnur jafnvel gegn mér. Þá gleymist mér að ég er í hópi þeirra heppnustu þegar horft er til heimsins alls, gleymi að ég get alltaf ráðið viðbrögðum mínum við aðstæðum þótt ég geti ekki ráðið sjálfum aðstæðunum.
Oftar tekst mér þó að vera þakklátur fyrir allt það góða sem heimurinn færir mér, tekst að stjórna hugsanagangi mínum og snúa frá villu volæðisins og sjá hið jákvæða eða spaugilega og einbeita mér að því sem ég ræð við, verða virkur og beina huganum á rétta braut. Sem betur fer lang oftast.
Þessu bloggi er ekki ætlað neitt sérstakt hlutverk annað en hugsanlega að gefa etv. einhverjum hlutdeild í þeim hugsunum sem rata hingað. Þær eru á mína ábyrgð en hvernig þær virka á þig er alfarið á þína eigin ábyrgð.


« Fyrri síða

Um bloggið

Íhugun JBH

Höfundur

Jón Baldvin Hannesson
Jón Baldvin Hannesson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband