Jónsmessunótt

Linsa í kók

Fór í Drangeyjarsiglingu á Jónsmessunni, nánar tiltekið föstudagskvöldið 23. júní kl. 22-02:30. Góð leið til að njóta íslenskrar náttúru og glíma við skemmtilegt myndefni. Fékk að vísu ekki miðnætursólina til að gylla bergið eins og ég var að vonast eftir en engu að síður lygnt og gott veður. Vegna skýja var birtan heldur lítil þegar dimmast var þannig að þetta voru ekki bestu skilyrði til myndatöku. Náði samt nokkrum þokkalegum myndum.

Við eyjuna er lítil steypt bryggja þar sem drangeyjarjarlinn, Jón Eiríksson, lagði bátnum að. Og þar varð slysið. Nýja Canon 10-22 linsan fór í sjóinn. Ég hafði verið að bogra við linsuskipti og einhver rakst utan í mig, ég missti jafnvægið og horfði á hvar linsan rúllaði eftir bryggjukantinum og ofan í hafið. Í bátnum var háfur og hófust björgunartilraunir strax þótt ekki sæist til linsunnar. Þær báru engan árangur svo við enduðum með að ganga upp á eyjuna, hlusta á sögur leiðsögumanns og skoða bjargið og fuglana. Báturinn fór í land að ná í fleiri ferðamenn.

Eftir um tveggja og hálfs tíma dvöl var komið niður aftur. Þá hafði fjarað talsvert og því auðveldara að beita háfnum úr bátnum. Og viti menn. Linsan kom í hann og upp á land. Nú voru góð ráð dýr. Í bátnum var 2ja lítra kókflaska með vatni í og í hana fór linsan. Markmiðið að sjálfsögðu að reyna að skola burtu saltið eða alla vegana leysa það sem mest upp. Eftir siglingu meðfram Reykjaströnd og Tindastóli var ekið áleiðis heim til Akureyrar. Þar var linsan sett í enn meira skol og síðan reynt að þurrka hana sem hraðast með hárblásara. Linsan höfð í viskastykki til að verja hana en fá hitann frá blásaranum.

Því miður voru björgunartilraunir árangurslausar. Húðin á glerjunum er augljóslega ónýt og líklegt að rafeindabúnaðurinn sé skemmdur líka. Þetta síðara þarf að fá endanlega staðfest hjá fagaðilum en skv. áætlun þeirra, í símtali, er ólíklegt að viðgerð svari kostnaði.

Jæja, ég í VÍS á mánudagsmorgunn og giskið á viðbrögðin þar. Jamm, engar bætur. Og ég sem hef tryggt hjá þeim í hátt í 30 ár og lítið þurft að leita til þeirra. Taldi mig vera eins vel tryggðan og mögulegt var. Nei, það þurfti þessa eða hina aukatrygginguna til að það gengi upp! Mér reiknast til að ég hafi greitt vel yfir 3 milljónir að núvirði, miðað við greiðslur mínar í dag, í sjóði VÍS. Það eina sem mér var boðið var að bæta við tryggingarnar og borga þeim meira! Ég sagði nei takk og langar mest til að skipta um tryggingafélag þótt ég geti ekki losnað fyrr en eftir 9 mánuði. Ný linsa kostar milli 80 og 90 þús. hér á landi, fer eftir gengi, og fæst ekki fyrr en eftir einhvern tíma. Ég sem hlakkaði mikið til að nota hana þegar ég geng Laugaveginn í byrjun júlí. Hversu óheppinn getur maður verið á Jónsmessunni, sem meira að segja heitir í hausinn á mér, eða þannig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Íhugun JBH

Höfundur

Jón Baldvin Hannesson
Jón Baldvin Hannesson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband